Ræktun og heilbrigði
Sheltie er almennt heilbrigt hundakyn. Lífslíkur eru lengri en að meðaltali hjá öðrum kynjum og fáir arfgengir sjúkdómar hrjá það. Stofninn á Íslandi kemur að stærstum hluta frá Svíþjóð en sænski Sheltieklúbburinn hefur birt ítarlega skýrslu um heilsufar og ræktun þar í landi sem byggð er á víðtækum rannsóknum og gögnum (sjá "RASspecifika avelsstrategier" hnappinn).
Grundvallarreglur HRFÍ tiltaka að aðeins skuli nota til ræktunar hunda sem eru líkamlega og andlega heilbrigðir og hafa gott geðslag sem er einkennandi fyrir kynið. Þá skal forðast pörun dýra sem samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gefa auknar líkur á alvarlegum sjúkdómum eða fötlun afkvæma og endurtaka ekki pörun þar sem fæðst hafa hvolpar með alvarlegan galla. Tíkur skal ekki para fyrir tveggja ára aldur. Augnskoðun - augnsjúkdómar Samkvæmt reglum HRFÍ um skráningu í ættbók þurfa undaneldisdýr að vera augnskoðuð af dýralækni með sérfræðiréttindi í augnsjúkdómum hunda, eftir eins árs aldur og niðurstaða kunn fyrir fyrstu pörun. Augnvottorð gildir ævilangt. HRFÍ flytur reglulega inn erlenda dýralækna með réttindi til augnskoðunar, upplýsingar um næstu skoðanir og skráningar fást á skrifstofu félagsins. Greinist hundur með arfgenga vaxandi sjónurýrnun (PRA) fást hvolpar undan honum ekki ættbókarfærðir. Hundurinn, foreldrar og afkvæmi hans eru sett í ræktunarbann. Sjúkdómurinn ágerist með aldri og leiðir til blindu. PRA er hægt að greina með DNA prófi, auk augnskoðunar. PRA hefur aldrei greinst í Sheltie hér á landi og er sjúkdómurinn mjög sjaldgæfur í kyninu. Collie Eye Anomaly (CEA, eða Choroidal Hypoplacia) er meðfæddur augngalli sem breytist að jafnaði ekki út æfi hundsins (ekki "prógressívur"). Hann finnst í flestum collie-hundakynjum og er nokkuð algengur í Sheltie (um 25% af þýði í Svíþjóð og enn fleiri berar). CEA er víkjandi arfgengur galli þar sem fleiri ein eitt gen koma við sögu. Augnskoðun gefur marktækustu niðurstöður við 6-10 vikna aldur hvolpa, en eftir það eykst litarefni í sjónunni sem getur falið gallann. Í dag er hægt að DNA prófa fyrir gallanum, en niðurstaða DNA prófs gefur einungis til kynna hvort hundur er "frír", "beri" eða "sýktur", en gráðar ekki sjúkdóminn sé hann til staðar.. CEA er skipt í tvö stig eftir alvarleika. Vægasta birtingarmyndin er misvöxtur í æða- og sjónuhjúp (CRD, eða Chorioretinal dysplasy) sem gjarnan er flokkaður í I, II og III, (eða mild, medium, strong) eftir magni. Alvarlegra form er sjóntaugarglufa, Coloboma, en stórum sjóntaugarglufum geta fylgt einkenni sem hafa áhrif á sjón eins og nethimnulosun og blæðingar. Það er þó mjög sjaldgæft. Ræktun undan CEA greindum hundum er leyfð, en Fjár- og hjarðhundadeild HRFÍ mælir ekki með ræktun einstaklinga með Colobom og mælir með því að CRD greindir hundar séu paraðir með fríum einstaklingum. Litir og pörun Leyfðir grunnlitir í Sheltie eru tveir, svartur og gulur (sable). Þriðji liturinn, blár (blue merle), bætist við vegna áhrifa merle-gensins sem þynnir út svartan lit í grá-bláan tón með svörtum flikrum. Hvítt fylgir að jafnaði með öllum litum, en sá svarti (og þar með blái) getur verið með eða án gulbrúns (tan) litar. Ræktunarmarkmið tilgreinir einnig svartan & gulbrúnan lit, án hvíts (black & tan) sem gera má ráð fyrir að sé horfinn úr genamengi Sheltie. Samkvæmt reglum HRFÍ um skráningu í ættbók fæst got undan tveimur bláum (blue merle) hundum ekki ættbókarfært og ræktunarbann er á hvolpum undan bláum og gulum (sable) sem þó er hægt er að aflétta, sé sýnt fram á með DNA prófi að hvolpur sé ekki merle. Merle gen frá öðru foreldranna skaðar ekki hvolp, en genið þynnir út þann grunnlit sem fyrir er í augum og feldi. Fái hvolpur merle gen frá báðum foreldrum veldur það bæklun; hvolpurinn verður blindur og heyrnarlaus, auk annarra vandamála. Við pörun á tveimur merle hundum eru 25% líkur á að hvolpur fái merle-genið frá báðum foreldrum. Ekki er forsvaranlegt að stunda ræktun og stofna til lífs með þessum líkum. "Merle-merle" paranir eru því bannaðar hjá Hundaræktarfélagi Íslands líkt og hjá öðrum aðildarfélögum alþjóðasamtaka hundaræktarfélaga (FCI).. Ræktunarbann á hvolpum undan bláum og gulum (sable) kemur til af því að merle-áhrif er nánast ómögulegt að greina í gulum feldi nema með dna prófi, þ.e. hvort gulur hundur úr slíku goti beri merle genið. Án dna prófs getur það aftur valdið hættu á merle-merle pörun í framtíðinni. Eftirtaldar litaparanir eru leyfðar: Svartur (tvílitur eða þrílitur) með öllum litum. Gulur með gulum eða svörtum. Blár (tvílitur eða þrílitur) með svörtum. Bláan hund og gulan mætti strangt til tekið para, en hvolparnir færu í ræktunarbann og tölfræðin gefur 50% líkur á sable-merle hvolpum. Tilgangur slíkrar ræktuna væri því tæpast að stuðla að framgangi hundakynsins. Gæta þarf að því að para ekki saman tvo hunda sem bera svokallaðan "white factor". Eitt og sér getur genið gefið glæsilega hvíta kraga og fallega skiptingu á hvítum og grunnlit, en fái hvolpur genið frá báðum foreldrum eða beri foreldri sterk white factor áhrif, eru líkur á að hvíti liturinn breiði úr sér yfir á svæði þar sem hann á ekki að vera, eins og á búk. Hundar með sterkan, tvöfaldan white factor geta verið alhvítir nema á höfði ("colorheaded white"). Ekki má rugla saman "white factor" og "merle" geni, tvöföldun þess fyrrnefnda hefur ekki heilsufarsleg vandamál í för með sér líkt og tvöföldun þess síðara. Erfitt getur verið að sjá hvort hundur beri "white factor" gen, en dæmigerð sjáanleg áhrif þess er að hvítur litur skríður frá innraverðu læri upp á lærið að utanverðu. Hægt er að DNA prófa fyrir white factor í dag. Multi-Drug Resistancy (MDR1) Sheltie er eitt þeirra fjárhundakynja sem geta verið ofurnæm fyrir vissum efnum/lyfjum. Vandamálið uppgötvaðist árið 1983 þegar að fjöldi Rough Collie hunda drapst eftir að hafa verið gefið ormalyfið Ivermectin. Skýring fannst árið 2004, en þá birtust niðurstöður rannsóknar þar sem sýnt var fram á að stökkbreyting í geni olli því að viss eiturefni sem finna má í nokkrum lyfjum, m.a. Ivermectin, áttu greiða leið úr blóðrásinni og inn í miðtaugakerfið með alvarlegum afleiðingum. Stökkbreytingin er kölluð MDR1. Hundar með MDR1 stökkbreytinguna eru næmir fyrir margskonar lyfjum, ss. lyfjum sem notuð eru við meðferð krabbameina, ákveðnum sýkladrepandi lyfjum, svæfingarlyfjum, ormalyfjum ofl. Íslenskir dýralæknar þekkja þessa áhættu og passa að jafnaði vel upp á innihaldslýsingar lyfja og lyfjakokteila sem hundum af kynjunum Shetland sheepdog, Rough collie, Border collie, Australian shepherd, Schäfer ofl. er gefið. Rétt er þó að minna dýralækna á að sheltie er eitt af MDR1 kynjunum ef gefa á hundi lyf. Hægt er að DNA prófa við stökkbreytingunni í dag. Ath. að hundar geta fengið eitrun af því einu að sleikja snoppur eða éta tað nýlega ormahreinsaðra hrossa eða annarra búgripa. Slík tilfelli hafa komið upp hér á landi í t.a.m. Australian Shepherd og Rough Collie. |